Forsiða / Ferðir / Silkileiðin mikla / Um Túrkmenistan

TÚRKMENISTAN

Túrkmensk teppi og Akhal-Teke hestar, sunnudagabasarar og fjöldinn allur af sögulegum minjum, svo sem rústir af virkjum Achaemenid ættarinnar og fornminjar frá Parthian tímabilinu, borgarrústir Merv, Koneur­gench og Nisa, miðaldakastalar, virki, áningarstaðir úlfaldalesta, grafhýsi og bautasteinar, - allt verður þetta til þess að draga ferðamenn til heita landsins Túrkmenistans.

Meðal þess sem ferðamenn ættu að sjá er hin geysistóra Turkmenbashi Ruhy moska, Turkmenbashi og Ruhyyet hallirnar, Sjálfstæðisstyttan, Hlutleysisboginn, og síðast en ekki síst Teppasafnið túrkmenska, þar sem meðal annarra safngripa gefur að líta nýlegt 301 m2 teppi sem kallað er ‘Gullöld Saparmurats Turk­menbashis’.

Auk margháttaðra menningarminja státar Túrkmenistan af náttúruperlum, svo sem Karakum eyðimörk­inni með sínum sandöldum, Bakharden hellinum með neðanjarðarstöðuvatninu Kou Ata, virkum eldgíg sem nefndur er Heljar­dyr, risaeðluflötinni Khojalil, Jangikala gljúfrunum, Repetek þjóðgarðinum, Kugitang friðlandinu, og Kopet Dag náttúruvættinu, auk annars.

Þrátt fyrir strangt vegabréfsáritunarkerfi er Túrkmenistan eitt áhugaverðasta ferðamannalandið í Mið-Asíu. Menn verða hugfangnir af landinu fyrir ýmsar furður, ljúffengan mat og sérstæð hátíðhöld.

Yfirlit

Túrkmenistan, sem hefur í aldanna rás verið hersetið af flestum stríðsherrum Mið-Asíu, er nú sjálfstætt ríki. Það á landamæri að Úzbekistan, Kazakhstan, Afghanistan og Íran. Íbúar eru sumir svo heppnir að heyra gjálfrið I Kaspíahafi, sem í raun er salt stöðuvatn.

Landið er 491 200 km2. Um 80 % af því er eyðimörk. Landið er illa fallið til landbúnaðar, en býr yfir gnóttum af jarðgasi.

Mannfjöldi er 5,2 milljónir. Túrkmenar eru frumbyggjar og 91 % af íbúum, en Úzbekar 3 % og Rússar 2 %. Norðurhlutann og strönd Kaspíahafs byggja aðallega Kazakhar.

Forsetinn stjórnar landinu. Síðasta áratuginn hafa orðið gagngerar beytingar á stjórnarfari. Til 2006 var Saparmurat Nijazov forseti, en nú þarf að kjósa forseta á fimm ára fresti. Mejlis, þjóðþingið, fer með lög­gjafar­valdið. Stjórmálaflokkar eru nýlega komnir til sögunnar.

Túrkmenistan skiptist í fimm fylki (velajat), og ein borg, höfðuðborgin, nýtur réttinda fylkis.

Höfuðborgin er Ashgabat með 900 000 íbúa. Borgin komst í heimsmetabók Guinness fyrir fjölda bygginga úr hvítum marmara, og þeirra vegna og vegna blendings austurlenskra og evrópskra bygginga er hún ein sú fegursta í Mið-Asíu.

 

Tungumál er túrkmenska, af tyrkneska málaflokknum

Þjóðargjaldeyrir er manat (TMM). Ekki er leyft að nota annan gjaldmiðil í Túrkmenistan.

Yfirgnæfandi meirihluti, 89 %, aðhyllast súnní-grein islams, en um 9 % játa kristna trú. Aðeins 2 % aðhyllast önnur trúarbrögð.

Í Túrkmenistan eru ýmsir helgir staðir islams, grafreitir og miðaldagrafhýsi, sem oft draga að sér pílagríma.

Klukkan í Túrkmenistan er stillt á UTC+5, klukkustund á undan staðartíma og 5 tímum á undan íslenskri klukku, sami tími allt árið.

Rafspenna er 220 V og tíðni 50 Hz, tenglar af gerð B, C og F (á Íslandi eru notaðir tenglar C og F).

Loftslag

Í Túrkmenistan er meginlandsloftslag, þurrt, með miklum hitasveiflum, lítilli úrkomu og mikilli uppgufun. Ssumarið er venjulega heitt og þurrt, meðalhiti í júlí 28 – 32 °C. Veturinn er mildur og yfirleitt snjóar lítið, en stundum gerir hríð og hitastigið getur fallið niður í -20°. Meðalhiti í janúar er frá -5° í norður­héruð­unum til +4 °C syðst. Það sem einkum einkennir verðurfarið í Túrkmenistan eru kaldir vindar frá gresjunum í Kazakhstan að vetralagi, og á sumrin heitur hnúkaþeyr að sunnan sem oft veldur sandstormi.

Best er að koma til Túrkmenistans á vorin (mars – maí) eða haustin (september – nóvember).

Heppilegur klæðnaður í Túrkmenistan

Eins og í öðrum löndum í Mið-Asíu sem voru á sínum tíma í Ráðstjórnarríkjunum gilda engar sérstakar reglur um klæðaburð. Á götunum má sjá marga klædda þjóðbúningum, en heimamenn hafa ekkert á móti evrópskum klæðaburði.

Þó ber að forðast að koma á trúarlega staði fáklæddur. Vegna hitans þarf að vera í léttum og víðum fötum úr bómull eða öðru náttúrlegu efni.

Í sveitinni er ekki ráðlegt að vera í flegnum stuttermabol vegna hættu á sólbruna. Höfuðbúnaður ætti að vera tiltækur.

Í borgum er hentugt að nota sandala eða svipaðan fótabúnað, en í sveitinni, og einkum í eyðimörkinni, ætti að nota lokaða gönguskó, því að þar er krökkt af eitruðum skorkvikindum.

Matargerð í Túrkmenistan

Súpur eru hvergi í Mið-Asíu eins vinsælar og í Túrkmenistan. Má nefna hveitisúpuna umpach-zashi, baunasúpuna gaynatma, tómatasúpuna gara-chorba, þær eru miklu fleiri. Þeim er það sameiginlegt að þær eru búnar til úr kindasoðinu chorba. Þetta er sama soðið og Kazakhar hafa til drykkjar, og Úzbekar bæta við grænmeti og elda úr súpuna shurpa.

Túrkmenskar súpur eru oft næringarríkari en í nágrannalöndunum. Evrópumenn eiga stundum í vand­ræðum með næsta rétt eftir svona matarmikla súpu.

Enginn skyldi þó hafna næsta rétti, því að varla svíkur hann neinn. Svo sem govurlan-et, steikt kindakjöt með tómötum, þar sem kjötið og grænmetið lyfta hvort öðru í æðra veldi.

Túrkmenska pilaf-ið (líka kallað pilaff, plov, pilau, pilav, polow, pulaw, pulao) er líka þess virði að reyna, jafnvel þótt ferðalangurinn kunni að vera orðinn leiður á því frá nágrannalöndunum; túrkmenar sjóða það nefnilega öðruvisi og bragðið er frábrugðið. Og hvergi nema í Túrkmenistan gefst kostur á fiski­pilaffi.

Í Túrkmenistan eru sjávarréttir algengari en í grenndinni, sjálfsagt vegna nálægðar Kaspiahafsins. Vinsæll fiskiréttur er balyk-gavurdak, pottfiskur.

Mjólkurréttir eru fjölskrúðugir í Túrkmenistan og bragðast vísast undarlega. Sumir, eins og chala, teleme, agarana og fleiri eru gerðir úr úlfaldamjólk. Bökunarvörur eru líka dæmigerðar fyrir landið. Pishme tvíbökur og shilekli kökur ættu að falla öllum unnendum austurlenskrar matargerðar vel í geð, rétt eins og þeim sem eru vanir Evrópumat.

Ekki ætti að drekka annað vatn en flöskuvatn eða soðið kranavatn, og nota það líka til að skola ávexti og grænmeti og bursta tennur.

 

Matarverð í Túrkmenistan

Gestir í landinu ættu að láta sér lynda verðlag í veitingahúsum og kaffistofum. Góður hádegisverður kostar 10 til 15 USD í veitingahúsi í Ashgabat, en í smærri bæjum jafnvel minna, svona um 8 USD.

Vegabréfsátritun, dvalarleyfi og öryggisráðleggingar

Þótt Túrkmenistan sé eftirsótt ferðmannaland, þá eru reglur um vegabréfsáritun og landvistarleyfi furðu flóknar og mörgum áhugasömum þrándur í götu.

Til að heimsækja Túrkmenistan þurfa borgarar allra annarra landa að fá vegabréfsáritun. Slíka áritun má fá gegn boðsbréfi frá Innflytjendastofnun (State Migration Service) Túrkmenistans. Það getur farið fram með tvennum hætti: a) í flugstöðinni á Ashgabat flugvelli (gesturinn verður að borga þóknun fyrir greiðann, og auk þess kann honum að verða synjað um áritunina svo hann verði sjálfur að kosta heim­ferðina), b) fyrirfram í ræðis­mannsdeild sendiráðs Túrkmenistans.

Útlendingar sem koma til meira en þriggja vinnudaga dvalar í Túrkmenistan verða að láta skrá sig innan þriggja vinnudaga hjá Innflytjendastofnuninni. Einnig geta þeir látið skrá sig á hótelinu þar sem þeir dvelja, en þá verða hótelstarfsmenn að sjá þeim fyrir öllum innflutningsskjölum. Slík skjöl ber að varðveita allan dvalartimann, annað getur leitt til ófarnaðar við brottför. Leyfilegt er að dvelja hvar sem er án skráningar fyrstu þrjá dagana.

Yfirleitt geta erlendir gestir verið með öllu öruggir innan Túrkmenistans. Röggsemi lögreglunnar hefur borið þann árangur að afbrot eru þar fátíðari en í öðrum löndum Mið-Asiu. Vissulega er alltaf hætta á að verða fyrir barðinu á vasaþjófi, en það er ekki líklegra en í einhverri evrópskri borg. Takið bara ekki stórfé eða dýrgripi með ykkur þegar þið farið af hótelinu.

Sérstakt leyfi þarf til að fara til svæða sem liggja að landamærum ríkisins.

Tollskoðun

Eins og víðast er bannað að hafa með sér inn í landið klámfengið efni, eiturlyf, vopn og skotfæri, og einnig prentað mál sem gæti ógnað stjórnkerfi Túrkmenistans. Útlendingar mega hvorki koma með innlendan gjaldeyri til landsins né fara með hann úr landi. Engin efri mörk eru á upphæð þess erlenda gjaldeyris sem má hafa með sér til landsins, en þegar landið er yfirgefið verður upphæðin að vera lægri. Við komuna til Túrkmenistans eru menn beðnir að fylla út tollyfirlýsingu og það þarf að gera samviskusamlega. Eintak af þessari tollyfirlýsingu þarf að varðveita þar til landið er yfirgefið. Ef einhverjir munir eru keyptir í Túrk­menistan, þá ætti að fá vottorð um að munirnir séu ekki sögulegir dýrgripir. Stórar minjagripabúðir láta slík vottorð fylgja keyptum munum.

Stragnglega er bannað að flytja kaviar úr landi, einnig ýmsa skartgripi, gimsteina, snákaeitur, kjöt, vissar plöntur og dýr, og teppi án sérstaks vottorðs. Svo það er vissara að stilla kaupæðinu í hóf. Mælt er með því að varðveita allar kvittanir fyrir keyptum varningi.

Peningar í Túrkmenistan

Að greiða með erlendum gjaldeyri er stranglega bannað í Túrkmenistan. Unnt er að skipta gjaldeyri í bönkum eða opinberum skiptistofum. Lokunartími banka er yfirleitt kl. 17:00, en skiptistofur í hótelum og flugstöðvum eru opnar allan sólarhringinn.

Yfirleittt er aðeins tekið við USD seðlum af nýjustu gerð. Þeir verða að vera fyllilega lýtalausir, ella er þeim hafnað. Stranglega er varað við að eiga viðskipti við sölumenn við basara eða á götunni, hætt er við að lenda í klónum á svindlara eða vera gómaður af lögreglunni við svartamarkaðsbrask.

Greiðslukort gefin út utan Túrkmenistans eru að mestu ónothæf í landinu. Hvergi er hægt að greiða með þeim nema í stórum hótelum eða verslunarmiðstöðvum í höfuðborginni.

Internet

Internet í Túrkmenistan er takmarkað, sumar vefsíður er ekki hægt að opna, samband er lélegt, vinnslu­hraði litill og verðið frekar hátt. Internetástandið hefur heldur skánað á síðari árum, en gæðasamband er ennþá fjarlægur draumur.

Ljósmyndun

Í Túrkmenistan má ljósmynda allt nema hernaðarmannvirki og sumar stjórnarbyggingar. Einnig ætti að forðast að ljósmynda eða taka hreyfimyndir á flugvöllum og nálægt landamærum.

Minjagripir

Teppi eru vafalaust þekktasta túrkmenska vara í veröldinni. Konur hafa ofið þau með tækjum og aðferðum sem ekki hafa breyst öldum saman. Skrautið í túrkmenskum teppum er undravert! Þriðja víddin blasir við þegar horft er á þau. Eini gallinn við þessa minjagripi er verðið.

Túrkmenar vita líka hve hrossin eru dýrmæt. Svo ekki er hægt að flytja Akhal-Teke hest úr landi fyrir nokkurn pening. En hestastyttur fást fjölskrúðugar, úr tré eða leir. Sóma sér vel á skrifborði!

Leirflautur fást líka margskonar í Túrkmenistan. Ómurinn úr þessum flautum minnir á niðinn frá fjallalæk, þyt vindsins í eyðimörkinni eða ærandi brimhljóð. Slík gjöf frá fjarlægu landi er öllum kærkomin.

Ef þarf að vernda vin fyrir illum öndum, þá eru túrkmenskir handverksmenn vísir að hlaupa undir bagga. Völ er á allskonar armböndum og töfrasteinum til verndar. Þeir sem ekki eru andatrúar geta borið með sér hlýjuna frá Túrkmenistan í telpak, þjóðlegu höfuðfati úr hvítu gæruskinni.

Þjóðareinkenni, hegðunarvenjur og siðir.

Hersdagslega eru Túrkmenar skapgóðir og gestrisnir menn. Siðir þeirra eiga sér rætur í tyrkneskri menn­ingu og islam. Íran og Rússaveldi hafa einnig haft talsverð áhrif í aldanna rás.

Auk laganna eru fornar hefðir og siðir notaðir til að leysa úr ýmsum hversdagslegum vandamálaum. Til dæmis er ættfeðraveldi við lýði og ættartengsl eru ennþá mikilsverð í þjóðfélagi Túrkmena, og aldraðir og aksakals (öldungar) eru mikils metnir í landinu.

Óráðlegt er að ræða stjórnmál eða tala um fyrri forseta landsins.