GEORGÍA

Georgía var nefnd Grúsía á íslensku allt til loka tuttugustu aldar. Á máli heimamanna heitir landið Sakartvelo, საქართველო

 

“Þegar Guð skipti landinu á jörðinni milli þjóðanna urðu Georgíumenn seinir fyrir, höfðu verið að halda hátíð, og nær þeir komu var búið að úthluta öllum heiminum. Þegar Guð spurði fyrir hverju þeir hefðu verið að skála, svöruðu þeir: “Fyrir þér Guð, fyrir okkur sjálfum, fyrir allri veröld­inni.” Guð hreifst af svarinu. Hann sagðist vera búinn að úthluta öllu landinu nema smá­skika sem hann hefði ætlað sjálfum sér, og nú skyldu þeir fá hann. Hann kvað þetta land bera af öðrum að fegurð, og fólk myndi dásama það um ókomin ár…”

 

Og svo varð. Fegurð Georgíu verður ekki lýst með orðum, Frekar á við að syngja um hana. Það finnst Georgíumönnum, og hvenær sem færi gefst lofa þeir land sitt og fegurð þess með fjölradda söng og dansi.

 

Auðuga landið mikla Georgía á sér langa og litríka sögu; um það bera vitni fornar kirkjur og klaustur allt frá frumkristni sem leynast í hvilftum hrikalegra Kákasus­fjallanna.

 

Náttúrfegurð þessa landsvæðis er einstök; allar árstíðirnar fjórar má sjá í einu vetfangi. Á fjallatindum ljóma snjóhettur, haustþoka með regni og slyddu læðist um hlíðar, dali skrýða vorblóm og ávaxtatrén blómgast, og loks nýtur sumars með sígrænum trjám á strönd Svarta­hafsins.

 

Gestrisni Georgíumanna er við brugðið; þeir halda fjörugar veislur þar sem hverju glasi af ljúffengu georgísku eðalvíni fylgir hljómfögur georgísk skálaræða.

 

Heimsþekktir listamenn og skáld hafa hrifist af Georgíu, m.a. rússnesku skáldjöfrarnir Púskin, Lermontov og Tolstoj, og margir fleiri.

 

Í eina tið lagði Jason leið sína til landsins Kolkheti, - eins og Georgía heitir í sögunni um “Gullna reifið”, - og enn flykkjast ferðalangar þangað unnvörpum til þess að njóta dásemda landsins, - hreins lofts, einstakra barrskógabelta, fagurra fjallavatna, gróður­sælla hvamma, heilsusamlegra ölkeldna, helgra staða allt frá frumkristni og víðþekktra ferða­manna­staða svo sem Batúmi, Tskhaltúbo, Súkhúmi, Borjomi, Gagra o. fl.

 

Georgia er fjölsótt af ferðamönnum. Á níunda áratug liðinnar aldar komu 4 – 5 milljónir á ári. Eftir að landið fékk sjálfstæði hefur dregið verulega úr ferðamannastraumnum vegna pólitísks óróa, En nú eru þær væringar að baki, og Georgía fagnar ferðalöngum hvaðan­æva að. Nú líður að því að milljón manns komi á ári.

Allt er einstakt í Georgíu, frumlegt og framandi. Fjölbeyttar menningarminjar eru dýrgripir þjóðarinnar, sem stolt og engum háð byggir þetta fagra og ríka en langþjáða land.

Matargerð í Georgíu

Georgísk matargerð á sér verðskuldað sæti á Ólympstindi matgæðinga. Öðrum þjóðum fremur finnst Georgíumönnum matur ekki bara til að borða, heldur líta þeir á hann sem veigamikinn hluta af menningunni. Kjöt er í flestum réttum. Landsmenn eru lausir við trúarlegar kreddur og nota jöfnum höndum kjöt af kindum, nautgripum, svínum og ali­fuglum í fjölbreytta rétti sína, og krydda þá með einstæðum georgískum kryddjurtum svo að bragðið verður ógleymanlegt. Georgískir réttir eins og gomi, lobio, khartsjo, tsjakh­okhbili, tsjanakhi, khinkali, satsivi og auðvitað georgískur shashlik á tréteini eru reyndar líka eldaðir í öðrum löndum. Í grænmetisrétti eru aðallega notaðar baunir, eggaldin, hvít­kál, blómkál, rófur og tómatar. Og grænrétti verður að nefna; hverri máltið skulu fylgja ferskir grænréttir – ávextir og grænmeti. Og ostarnir verðskuld sérstakt lof, enda eru þeir hafðir í miklum metum. Flestum réttum fylgir ostur og grænmetisbragðefni. Þekktasti ostarétturinn er "khatsjapúri" – ostabaka sem er víðfræg utan landsteinanna.

Georgísk vín

Vínin eru þjóðarstolt Georgíumanna. Enda er Georgía vagga víngerðarinnar. Fornminjar grafnar úr jörðu sýna fram á það. Rannsóknir hafa leitt í ljós að 6 öldum fyrir okkar tímatal  var búið til vín í Georgíu. Georgíuvín eru einstæð í veröldinni, enda notaðar fornar hefðir við víngerðina. Vínið er ekki látið eldast I gleri eins og víðast, heldur í séstökum leir­ker­öldum sem heita "kvevri", og gefur það víninu einstakan keim. Hér eru nöfn á nokkrum georgískum vinum: "kindzmaraúli", "tsinandali", "teliani dalur", "manavi", "múkúzani", "napareúli", "alazani dalur", "akhasheni", "khvantsjkara", "tsolikoúri", "isjkhaveri", "argveta", "kardanakhi", "hirsi", "psou", "samo", "eniseli", og fleiri mætti nefna. Keimurinn af georgísku víni gleymist ekki.

Gjaldmiðill

Þjóðargjaldmiðill Georgíu heitir "Lari” (GEL). Gjaldeyri er hægt að skipta í bönkum og skipti­stofum. Bankar eru opnir kl. 9:30 til 17:30 virka daga og til 14:00 laugardaga. Líka er hægt að nota bandríkjadali, USD. Á glæsihótelum og í verslunarmiðstöðvum er tekið við greislukortum - VISA, Eurocard/Mastercard og Cirrus/Maestro. Í búðum, venjulegum hótelum og úti á landi er vissara að nota reiðufé. Ferðatékkar ættu að vera í USD eða EUR. Auðvelt er að leysa þá út í bönkum.

Lega og landslag

Lýðveldið Georgía er í suðaustur Evrópu í vesturhluta Kákasus. Það liggur að Rússlandi að norðari, Azerbædsjan að austan, og Tyrklandi og Armeníu að sunnan, en að vestan bylgjast Svartahafið við ströndina. Megnið af landinu er fjalllendi, og meira en þriðjungur er vaxinn þéttum skógi. Hæsta fjallið er Shkhara (5 068 m), á hæsta hrygg Kákasusfjalla norðanlega í landinu. Lægri hryggur liggur að sunnaverðu, fjöllin þar ná ekki 3 000 m hæð.

Loftslag

Loftslag er mismunandi eftir landháttum. Vestast er loftslag heittemrað, en austast temprað. Meðalhiti í janúar er +3 til +9 °C á Kolkheti lágsléttunni og í Adjara, og fer ekki niður fyrir -2 °C í Iberiudældinni. En á hálendi getur hitastig fallið niður í -16 til -20 °C. Löng sumrin eru yfirleitt hlý, og í agúst er meðalhitinn um +23 til +26 °C í mestöllu landinu. Snjókoma er aðallega i nóvember í fjallahéruðum, og snjóa leysir ekki fyrr en síðla vors. Allt árið er veðurfar í Georgíu hentugt fyrir ýmiskonar afþreyingu og dvöl til heilsubótar, og náttúran sér til þess að ævinlega má gera ráð fyrir gnægð af sólskini og ferskum ávöxtum og grænmeti.