Forsiða / Ferðir / Um Rússland

RÚSSLAND

Garðaríki vorra daga

Rússland er stærsta land í heimi að flarmáli, teygir sig yfir vænan skika norðurhvels frá Mið-Evrópu í vestri til Alaska og Japanshafs í austri, um tíu þúsund kílómetra og ellefu timabelti, frá Íshafi til suðurs um fjögur þúsund kílómetra.

Helstu stórfljót Rússlands eru Volga, Jenisej, Lena, Ob og Amúr, en ár eru um 2,8 miljónir talsins. Stærstu stöðuvötn eru Bajkal (dýpst í heimi, 1620 m), Ladogavatn og Onega (stærstu vötn í Evrópu) og Tajmyr (nyrst í Síbiríu). Rússland liggur að Kaspíahafi, en í því er saltur sjór.

Samkvæmt manntali 2019 eru 15 miljónaborgir í Rússlandi: Moskva, Pétursborg, Nizhnij Novgorod, Volgograd, Samara, Perm, Úfa, Kazan, Novosíbirsk, Jekaterínbúrg, Omsk, Tsjeljabínsk, Krasnojarsk, Voronezh og Rostov við Don. Aðrar borgir og bæir skipta þúsundum.

Fimmtungur íbúa Rússlands er búsettur austan Úralfjalla, hinir búa í Evrópuhlutanum.

 

Flatarmál       ríflega 17 miljónir km2

Höfuðborg     Moskva, fjöldi íbúa 15 miljónir (2018)

Fólksfjöldi     147 miljónir (2018)

Stjórnkerfi     Rússneska sambandslýðveldið: 21 sjálfstjórnarlýðveldi, 6 fylki, 49 sýslur,
2 sjálfstjórnarborgir, 1 sjálfstjórnarsvæði og 10 sjálfstjórnarhéruð

Þjóðerni         landsmenn eru af fjölskrúðugu þjóðerni, teljast til 160 mismunandi þjóðarbrota (Rússar 81 %, Tatarar 4 %, aðrir 15 %)

Trúarbrögð   kristni (47 % alls, rétttrúnaður 43 %), íslam (6 %), önnur trúarbrögð (2 %),
utan trúfélaga (45 %)

Ríkismál         rússneska

Gjaldmiðill     rúbla (RUB)

Þjóðhátíðardagur                 12. júni

Heimsminjar UNESCO        í Rússlandi eru 23 sögu- og menningarminjar skráðar á heimsminja
skrá UNESCO. Nokkrar af þeim helstu: Kreml í Moskvu ásamt Rauðatorginu, söguleg miðborg Pétursborgar, fornmenjar í Novgorod, trékirkjurnar á Kizhi-eyju

Landafræði og loftslag

Um 70 % Rússlands eru flatneskjur, austurevrópuslétturnar og vestursíbiríuflesjan, en á milli liggur Úral fjallgarðurinn. Strendur Svartahafts mynda suðurmörk að vestan, síðan gnæfa Kákasusfjöll milli Svartahafs og Kaspíahafs, þar er hæsti tindur landsins Elbrus, 5 642 m y.s. Altajfjöll eru á mörkum Rússlands, Mongólíu og Kazakhstans, og Sajanfjöll skilja að Mongólíu og Rússland. Í Síbiríu og fjarlægu austri rísa Sikhote-Alin, Verkhojansk og Tsjersky fjöll.

Á Kamtsjötku og Kurileyjum eru mörg eldfjöll, um fjórðungur þeirra er ennþá virkur.

Skógur þekur um 40 % af rússnesku landi, þjóðgarðar eru 35 og friðlönd 84. Dýralíf er fjölbreytt, auk héra, úlfa, refa og bjarndýra lifa í Rússlandi tígrisdýr og hlébarðar, og í norðri hvítabirnir, rostungar og önnur dýr sem þrífast á þeim slóðum.

Rússland nær yfir fjögur loftslagsbelti: heimskautabeltið, kuldabeltið, tempraða beltið, megnið af landinu liggur í því, og heittempraða beltið.

Svalasta svæði Rússlands er nyrsti hluti fjarlæga austurs, þar er í grennd við bæinn Ojmjakon að finna einn kaldasta stað á byggðu bóli; í janúar getur frostið orðið meira en -46 °C. En það er ekki alstaðar svo kalt, í Krasnodar héraði og á Krímskaga tekur snjó fljótt upp ef hann fellur, en fjallahnjúkar hafa húfur mjallahvítar. Yfirleitt verður þar ekki kaldara en 10 °C að vetrarlagi.

Sumarið er líka mjög misheitt; þá getur verið óbærileg hitasvækja í suðurhlutanum, +30 °C, þótt snjóa leysi varla fyrir norðan, +1 °C.

 

Hitastig í Moskvu

                   

             Meðal hámarkshiti, °C     Meðal lágmarkshiti, °C   

 

jan        -4°                                     -9°

feb        -4°                                   -10°

mars      3°                                     -4°

apríl     11°                                      2°

maí      19°                                      8°

júní      22°                                    12°

júlí       25°                                    14°

ágúst   22°                                    13°

sept    16°                                       7°

oct       9°                                        3°

nóv      1°                                       -3°

des     -3°                                       -8° 

 

Ferðaleiðbeiningar

Fjöldinn allur af héruðum í Austur-Evrópu og Norður-Asiu eru í Rússlandi, og þar býr urmull þjóðarbrota. Hvert hérað er frábrugðið öðrum að sögu, náttúrufari og hefðum, og hefur sín séreinkenni. Margþætt Rússland býður ferðalangnum heillandi hvíld í náttúrunni og fræðandi skoðunarferðir um sögulega staði, svo og ýmsa skemmtan og notalega dvöl á baðströndum og margt fleira. Allt eftir því hvað hver vill og hvaða staður er valinn.

Að sjálfsögðu liggur beinast við að byrja á því að kynnast stórborgunum tveimur, Moskvu og Pétursborg. Í báðum er að finna fjölda sögulegra bygginga og ýmissa safna af margvíslegum toga, auk fjöldamargs annars sem vert er að sjá.

Vegna hlutverks þeirra í sögu landsins og sérkennilegrar byggingarlistar er vert að skoða fornu bæina í Mið-Rússlandi á Gullna hringnum svonefnda: Súzdal, Vladimír, Jaroslavl o.fl.

Í Rússlandi eru mörg friðlýst svæði svo sem skógar og tjarnir í Karelíu og unaðsleg stöðuvötn í Khakassíu. Í Tatarstan lýðveldinu eru stórfljót (Volga, Vjatka, Bjelaja, Kama) og fögur stöðuvötn; höfuðborg lýðveldisins er Kazan, fornfrægt menningarsetur með mörgum galleríum, söfnum og leikhúsum. Kremlið í Kazan-er á heimsminjaskrá UNESCO (en á rússnesku þýðir “kreml“ virki).

Til vistfræðilegra skoðunarferða er Altaj lýðveldið tilvalið, menn geta lagt land undir fót, þeyst um á fáki fráum eða róið bátkænum. Af fjöldamörgum náttúruvættum er Teletskoje-stöðuvatnið þekktast, en á bökkum þess eru margir greiðasölustaðir og tjaldstæði.

Í Krasnodar er sælustaður þeirra sem dýrka sjávarsíðuna. Tær sjór, sólríkt veður og hreint loft stuðla að heilnæmri hvíld; í Sotsí er fjöldi heilsuhæla og orlofsstaða, þar er einnig frábær aðstaða til skíðaiðkana að vetrarlagi.

Þá er Kákasus víðfrægt fyrir ölkelduvatn sitt og græðandi leðju. Þar má einnig stunda skíða­ferðir og renna sér á snjóbrettum og allrahandana græjum.

Fyrir unnendur þjóðháttafræða er tilvalið að fara til Kalmykíu, Dagestans eða sjálfstjórnar­svæðisins Khanty-Mansi, en þar eru ennþá við lýði byggðir þar sem hokrað er að fornum sið.

Óhætt er að fullyrða að hvernig sem menn kjósa að verja orlofi sínu, þá sé tilvalið að gera það í Rússlandi!

Matur og drykkur

Mataræði er vitaskuld margskonar í Rússlandi, er breytilegt frá einu héraði til annars. Sennilega er rússnesk matargerð ein sú fjölskrúðugasta í heimi, fornslavnesk eldamennnska blandaðist því sem tíðkaðist hjá þeim fjölmörgu sem þangað lögðu leið sína eða ílentust. Þar sem í landinu búa meira en 100 þjóðarbrot og hvert þeirra hefur sínar eigin matarvenjur, þá er ansi snúið að lýsa rússneku mataræði i stuttu máli. Þó eru til ýmsir sérrússneskir réttir sem ekki verður komist hjá að geta hér.

Við rússneska eldamennsku er að jafnaði ekki notaður hrár matur. Hann er hægmallaður, bakaður, soðinn, niðursoðinn eða súrsaður. Hádegisverður er venjulega þríréttaður: súpa (borsjs, rauðrófusúpa; sjsí, kálsúpa; eða einhver önnur), annar réttur (kjöt eða fiskur með meðlæti) og þriðji réttur, sem getur verið drykkur eða mauk (berja- eða ávaxtasafi, hlaup eða sulta) eða sætindi. Og á rússnesku matarborði eru ávallt ýmiskonar smáréttir (zakúski).

Þar sem korn, svo sem rúgur, hafrar og hveiti er ræktað í stórum stíl í Rússlandi, þá er búið til margs konar brauð, grautar, lummur, bjór og fleira úr korni. Blíny eru feykivinsælar lummur, með þeim er hafður sýrður rjómi, kavíar, sulta, hunang, fiskur eða hvað annað sem hugurinn girnist. Fjölmargir aðrir vinsælir réttir eru gerðir úr mjölafurðum, svo sem pírogi með margs­komar fyllingum. Erfitt er að hugsa sér rússneskt matborð án brauðs, enda segir málshátturinn „Hauslaus er brauðlaus maður“.

Þá eru grautar vinsælir í Rússlandi, en þeir voru áður fyrr soðnir á ofninum sem kynti húsið. Grautar úr höfrum, byggi, hirsi og bókhveiti eru meginþáttur í mataræði rússneskra fjölskyldna. Til morgunverðar er gjarnan soðinn grautur borinn á borð með smjöri og sultu.

Vegna loftslagsins þurfa menn í Rússlandi að eiga kost á heitum og góðum drykkjum, eins og saðsömum súpum. Vinsælustu súpurnar eru sjsí, okroshka (aðallega á sumrin), og svo auðvitað borsjs.

Hefðbundir drykkir í Rússlandi eru kvass, ávaxtasafi, te og sbiten (heitur vetrardrykkur), og af áfengum drykkjum vodka og medovúkha (áfengur hunangsdrykkur) og ýmiskonar brugg.

Rússneskir réttir eru einstæðir en ekki eins úbreiddir og til að mynda ítalskir eða japanskir, þannig að ferðalangurinn getur brugðið sér í líki matgæðings og ferðalagið orðið sælkeraferð.

Minjagripir

Rússland er feykistórt land með fjölda héraða, og hvert þeirra á sér sín sérkenni. Hverju héraði hæfa sérstakir minjagripir. Mest er varið í þá gripi sem bera með sér rússneskan anda og votta um hefðir héraðsins. Oft eru þetta gripir sem eru ekki fáanlegir neinstaðar annarstaðar í heim­inum.

Það er víst ekkert vafarmál að vinsælustu minjagripir frá Rússlandi eru matrjúskurnar (oft kallaðar babúskur), sem fást um gervallt Rússland. Hefð er fyrir að þær sýni rússneska blómarós í rauðum kjól með sjal, en oft eru sýndar aðrar fyrirmyndir: ævintýrapersónur, heilar fjölskyldur, stjórnmálamenn eða einfaldlega teikningar og málaðar myndir.

Túlskar piparkökur hafa náð miklum vinsældum, þær eru fylltar sultu og fagurleg skreyttar. Þótt þær séu upprunnar í Túla-héraði eru þær víðast fáanlegar. Ef ferðalangurinn leggur leið sína til Túlu er líka tilvalið að kaupa túlskan samovar.

Þá eru rússnesk vetrarstígvél kærkomin gjöf. Þau eru ótrúlega hlý, bollurinn oft skreyttur utan.

Pavlovsky Posad sjöl eru af mörgum stærðum og gerðum og skreytt fögrum mynstrum. Þau eru tilvalin kvennadjásn, þykja frábærir minjagripir.

Af rússneskum matvælum kaupa erlendir ferðamenn gjarnan hunang, en af því fást fjölmargar gerðir, kavíar og þjóðardrykkinn vodka. Þá koma margir með fisk frá Rússlandi. Þeir sem fara til Bajkalvatns ættu endilega að taka með sér harðfisk heimamanna. Pastila er vinsælt lostæti síðan i byrjun 20. aldar, það eru pressaðar sætindiþynnur með þeyttri eggjahvítu og sykri.

Ótal margt er hægt að hafa með sér frá Rússlandi¸ súkkulaði og konfekt, lökkuð skrín, skartgripi úr rafi, trégripi, furuhnetur og sitthvað fleira hér ótalið.

Helstu sérhátíðir í Rússlandi

1. janúar                 Nýársdagur, mesta hátíð Rússlands. Á nýársnótt fara afi Frosti og litla Mjöll
um og dreifa gjöfum. Þetta er fjölskylduhátíð, á að vera fjörug og skemmti­leg

7. janúar                 Jól rétttrúnaðarmanna. Frá miðjum desember fram í miðjan janúar ár hvert stendur „Ferð til jóla“. Þá er á götum Moskvuborgar fjöldinn allur af mörkuðum

23. febrúar             Dagur verjenda ættjarðarinnar, áður dagur Rauðahersins

8. mars                   Alþjóðadagur kvenna

1. og 2. maí            Fyrsta maí hátíð. Á tímum Ráðstjórnarríkjanna hét hún Hátíð verkalýðsins.
Alþjóðlegur baráttudagur vinnandi stétta, haldinn í mörgum löndum

9. maí                     Sigurdagurinn yfir Þýskalandi nasista, hátíð með tár á hvörmum. Föður­
lands­stríðið mikla kostaði miljónatugi mannslífa. SIGURGANGA

12. júní                   Sjálfstæðisdagur Rússlands. Þjóðhátíðardagur - mörgum torskilinn - hver hlaut sjálfstæði

4. nóvember          Dagur þjóðareiningar. Þennan dag árið 1612 hvöttu Mínin og Pozharskij
fólk til að sameinast og reka af höndum sér pólskan her sem sat um Moskvu