Forsiða / Ferðir / Silkileiðin mikla / Um Úzbekistan

ÚZBEKISTAN

Í Úzbekistan er meginlandsloftslag, þar er hlýtt að sumarlagi og búast má við 300 sólskinsdögum á ári. Úzbekar eru gestrisnir og höfðingjar heim að sækja.

Úzbekistan státar af fjölbreyttu landslagi og margháttuðum náttúruperlum. Sandöldur Kyzylkum eyði­merkur­innar eru minnisstæðar, einnig fjallavötn, gresjur og gróðurvinjar. Tien Shan fjjöllin gnæfa skammt frá Tashkent, þar er að finna glæfralegt landslag og margvísleg heilsuhæli, og skoppandi fjallalæki sem fóðra fljótin Amúdarja and Syrdarja. Í gróðursælum dölum vaxa ávextir og grænmeti, melónur og vínber, þar eru einnig baðmullarekrur og áhugaverðir þjóðgarðar og nattúruvætti.

Úzbekistan á sér langa og merka sögu, og þar eru fornfrægar mörg þúsund ára gamlar borgir sem eiga sé magnþrungna sögu, svo sem Búkhara og Samarkand..  Það landsvæði sem nú heitir Úzbekistan hefur verið hluti af ýmsum helstu stórveldum sem hafa risið og fallið á þessum slóðum I rás veraldarsögunnar, svo sem af veldi Alexanders mikla (sem þar nefnist Iskander), af veldi Genghis Khans sem náði frá Kyrrahafi vestur á sléttur Ungverjalands, af persneska Timúridveldinu sem Úzbekinn Amir Timur (eða Tamerlane) stýrði, og loks var landið eitt af lýðveldum SSSR.. Áður fyrr geisuðu þarna vægðar­lausar styrjaldir þar sem mann­fólkinu var slátrað og byggingar jafnaðar við jörðu, en inn á milli blómguðust listir og vísindi. Hér hafa öldum saman legið krossgötur ólíkra menningarheima, þúsundir úlfaldalesta hafa í aldanna rás þrammað Silkileiðina miklu sem tengdi Miðausturlönd, Miðjarðarhafsríkin og Evrópu við Indland og Kína. Að sjálfsögðu hafa þessi viðskipti og mannaferðir skilið eftir sig margvíslegar minjar, svo sem fjölskrúðuga matargerð.

Yfirlit

Tveir þriðjungar landsins eru eyðimerkur og gresjur, afgangurinn er fjöll og dalir og gróðurvinjar.

Í Úzbekistan eru 12 fylki og sjálfstjórnarlýðveldi (sjálfstjórnarlýðveldið Karakalpakstan er stundum stafsett Qaraqalpaqstan).

Mannfjöldi er ríflega 29 milljónir (áætlað 2012), þar af 37 % í borgum, 63 % í sveitum. Um 60 íbúar á km². Af íbúum eru um 80 % Úzbekar, 5,5 % Rússar, 5 % Tadsjíkar, 5 % Kazakhar, 2 % Karakalpakar, 1,5 % Tatarar og aðrir um 1 %.

Úzbekistan er lýðveldi þar sem forsetinn er bæði þjóðhöfðingi og forsætisráðherra. Ríkisstjórn fer með framkvæmdavaldið, en löggjafarvald skiptist milli ríkisstjórnarinnar og tveggja þingdeilda, löggjafar­deildar og öldungadeildar.

Höfuðborg Úzbekistans erTashkent, með meira en hálfa þriðju milljón íbúa. Tashkent er eina borgin í Mið-Asíu með jarðlest (Tashkent Metro). Jarðlestarstöðvarnar eru taldar með þeim fegurstu í heimi.

Loftslag

Það er hægt að ferðast um Úzbekistan allt árið, en hagstæðasti ferðatíminn er talinn mars – júlí og sept­ember - október. Frá júnílokum fram í miðjan ágúst er heitt, oft um og yfir 40 °C síðdegis (tsjilla á máli heima­manna). Haustin eru hlý og uppskera ríkuleg, Á mörkuðum (bösurum) fæst gnægð afbragðs ávaxta og grænmetis við vægu verði. Í nóvemberlok er oft um 10 °C hiti á daginn. Að vetrarlagi er oft frost, getur farið niður fyrir -15 °C. Stundum gerir regnskúrir og jafnvel snjóél, en það gerist sjaldnar og stendur skemur en tíðkast í Evrópu.

Heppilegur klæðnaður í Úzbekistan

Æskilegur klæðnaður fer eftir árstíðum. Þegar hlýtt er eða heitt er best að klæðast fötum úr bómull eða öðrum náttúrlegum efnum, stutterma bol og víðum buxum eða stuttbuxum. Verið í þægilegum skóm, léttum og sterkum, því stundum þarf að ganga í hrjóstrum. Rétt er að hafa handbær sólgleraugu, létt höfuðfat og sólarolíu.

Snemma vors (í mars - aprílbyrjun) og síðla hausts (okóber – nóvember) er ráðlegt að klæðast vindheldum flíkum og hafa tiltæka peysu. Að vetrarlagi getur orðið 10 til 25° frost, einkum í fjöllum og að næturlagi. Þá þarf að klæðast hlýjum fötum, peysum, úlpum, síðum nærbuxum og loðhúfum eða lopakollum.

Athugið að hitamunur dags og nætur er mikill, einkum í eyðimörkinni, gresjum og fjöllum. Munið því að taka með ykkur hlý föt til næturinnar.

Fylgið hefðum heimamanna varðandi klæðaburð. Þegar komið er á trúarlega staði ættu konur að hylja handleggi og fótleggi, og auðvitað brjóstaskoruna. Þá er ráðlegt að bera skuplu. Athugið að fara úr skónum þegar gengið er inn á staði þar sem beðist er fyrir.

Úzbesk matargerð

Hefðbundin úzbesk matargerð er sennilega sú besta í Mið-Asíu. Heimamenn hafa tileinkað sér og þróað rétti sem kaupahéðnar færðu þeim upp í hendurnar á tímum Silkileiðarinn miklu.

Vinsælustu úzbesku réttirnir heita: pilaf, laghman, samsa, shurpa, manti, nahud, og shashlik.

•  Pilaf (osh á úzbesku) er einkennisréttur Úzbekistans. Það er soðinn hrísgrjónaréttur með olíu, kjöti, kryddi og gulrótum. Hvert hérað á sitt sérstaka pilaf.

•  Laghman (eða lagman) eru núðlur í sósu með kjöt- og grænmetisbitum. Rétturinn er ættaður frá Kína.

• Samsa eru þríhyrningar úr deigi fylltir af kjöti, lauki og fitu, eða hökkuðum kartöflum eða graskeri. Samsa er bakað í úzbeskum tandir leirofnum.

•  Shurpa er svipuð og íslensk kjötsúpa.

•  Manti eru úzbeskar kniðlur með kjöt- og kartöflufyllingu, feiti, lauk og kryddi.

•  Nahud er úr soðnum baunum (garbanzos) og kindakjöti.

•  Shashlik eru ýmiskonar kjötbitar steiktir á teini, margvíslegur og fjölskrúðugur réttur.

Margskonar úzbeskt flatbrauð bakað í tandir leirofni er mjög vinsælt og eftirsótt.

Matarverð í Úzbekistan

Morgunverður er innfalinn I hótelgistingu. Hér fyrir neðan er tilgreint áætlað matarverð í veitingahúsi. Áætlunin er gróf og óáreiðanleg, verð tilgreint í bandarikjadölum.

•   Kaffi/te                 1 - 3    USD

•   Svaladrykkur        1 - 2    USD

•   Flöskuvatn              0,5    USD

•   Bjór                      1 – 2    USD

•   Hádegiverður (tvíréttaður, salat)                         5 - 25 USD

•   Kvöldverður (tvíréttaður, salat og eftirréttur)     10 - 25 USD.

Vegabréfsáritun og dvalarleyfi

Borgarar annarrra landa en Úzbekistans og CIS-landanna, sem njóta undanþágu, þurfa vegabréfsritun til Úzbekistans.

Til að fá vegabréfsáritun inn í Úzbekistan, eða til ferðar í gegnum landið, þurfa menn í skipulögðum ferðum að fá sérstakt boðs­bréf (Visa Invitation Letter eða Visa Support) frá þeim aðila sem skipuleggur ferðina.

Útlendingur sem kemur til Úzbekistans þarf að fá dvalarleyfi innan þriggja vinnudaga (samliggjandi eða ekki) eftir að hann kemur til landsins. Ef hann dvelst í úzbesku hóteli eða gistihúsi á dvalarleyfi fyrir dvölina þar að fást sjálfkrafa. (Ef þið ferðist ekki á vegum ferðaskrifstofu, gangið þá úr skugga um að fyrirhugað gisti­hús veiti slíkt dvalarleyfi. Gætið þess líka að fá dvalarleyfið með stimpli gistihússins afhent við útskrán­ingu.) Þeir sem ekki ferðast á vegum ferðskrifstofu þurfa að fá dvalarleyfi hjá sérstakri skráningardeid lögreglu (skammstöfun OVVIG eða OVIR).

 

Tollskoðun

Við tollskoðun inn í landið þarf að fylla út í tvíriti tollyfirlýsingu, þar sem m.a. skal  tilgreina peninga­upphæð sem er með í för og í hvaða gjaldmiðli. Annað eintakið fær tollvörður, hitt eintakið þarf ferðalangurinn að varðveita uns landið er yfirgefið. Við tollskoðun út úr landinu þarf að gefa nýja gjald­eyris­yfirlýsingu, og þá kann tollvörður að krefjast komuyfirlýsingarinnar til að staðfesta peninganotkun í landinu.

Það eru engin efri mörk á þeirri peningaupphæð sem útlendingar mega hafa með sér inn í Úzbekistan. Ef maður kemur inn í landið með meira en 5 000 USD (eða jafnvirði þess), þá fær hann svokallað ТС-28 skír­teini. Hafi hann meðferðis meira en 10 000 USD þarf að greiða 1 % gjald af upphæðinni.

Sú upphæð gjaldeyris sem farið er með úr landi má ekki vera hærri en sú sem komið var með. Bannað er að flytja úr land úzbeska peninga (súm), nema um sé að ræða smáupphæðir sem minjagripi.

Noti menn lyf er vissara að hafa þau með sér, eða láta kanna fyrirfram hvort lyfin séu fáanleg í Úzbekistan.

Þjóðargjaldeyrir Úzbekistans

Gjaldeyririnn í Úzbekistan heitir súm (UZS). Seðlar eru 100, 200, 500, 1 000 og 5 000 súm, og smámynt 25, 50, 100 og 500 súm er mikið notuð. Seðlarnir eru af svipaðri stærð en mismunandi á litinn, á þeim eru myndir af ýmsum mennningarminjum landsins.

Hægt er að skipta peningum í útibúum þjóðbanka Úzbekistans, og á flestum hótelum og í grennd við basara og verslunarmiðstöðvar eru oft skiptistöðvar. Til að skipta peningum þar þarf að framvisa vegabréfi og dvalarleyfi.

Svo er svartur markaður með gjaldeyri í Úzbekistan, einkum í grennd við basara. Þótt gengið sé hærra er óráðlegt að nýta þá þjónustu. Maður gæti lent á svindlara, og löggan gæti gripið mann glóðvolgan.

Algengasti erlendi gjaldeyririnn í Úzbekistan er bandaríkjadalir, USD. Seðlar sem á að skipta þurfa að vera hreinir og snyrtilegir, ella kann að reynast erfitt að fá þeim skipt.

Greiðslukort svo sem Visa og MasterCard er hægt að nota víða í Tashkent og sumstaðar í Samarkand og Búkhara í stærri hótelum og bönkum, og þá í hraðbönkum (ATM). Hægt era að greiða með kortum í sumum hótelum, veitingahúsum og verslunum í Tashkent. En alltaf er viðbúið að greiðlsukortabúnaðurinn virki ekki, svo að ávallt er vissara að hafa reiðufé handbært.

Myndataka

Á ferðamannastöðum er leyfilegt að taka myndir nema það sé bannað með skilti. Víðast þarf að borga ljósmyndunar­gjald. Bannað er að taka ljósmyndir og myndskeið í Tashkent metro, á flugvöllum og járnbrautar­stöðvum, og á stöðum sem þykja mikilvægir hernaðarlega. Ef einhvern langar til að taka mynd í mosku þar sem trúarathöfn fer fram, þá ætti fyrst að fá leyfi þeirrra er athöfnina fremja.

Þjórfé

Úzbekar hafa lengi verið annálaðir fyrir gestrisni, má segja að þeir séu stoltir af. Gestum er forkunnarvel tekið, og ef þeir vija endurgjald greiðann með peningum er gestgjöfunum spurn: ‘Hvers vegan þá? Við fögnuðum ykkur frá innstu hjartarótum.’ Svo þegar svona stendur á er betra að gefa minjagrip en peninga.

En öðru gegnir um menn sem sinna þjónustu við ferðmenn, svo sem þjóna, bílstjóra, leiðsögumenn, túlka, handverksmenn; þeim er viðeigandi að launa veitta þjónustu, - og það er vel þegið, -  ef menn eru ánægðir með hana. En það er ekki regla, menn þurfa ekki að fyrirverða sig fyrir að gefa ekki þjórfé af ein­hverjum ástæðum, það er ekki skylda og þjónustan á að vera innifalin i launum. Í veitingahúsum til dæmis er á reikningum talið verð veitinganna sem pantaðar voru, og bætt við 5 til 10 % fyrir þjónustu (þeirra sem ganga um beina og annarra). En þeir eru varla ofhaldnir af.

 

Úzbeskir minjagripir

Minjagripaiðnaður hefur eflst mjög í Úzbekistan og vekur aðdáun ferðamanna. Framboð er gífurlegt, og listavel gerðir hlutir eru falir fyrir afar hóflegt verð. Úzbekst handverk er margvíslegt og afar girnilegt. Má nefna leirkerasmíð, útskurð í tré, hnífa- og skrínagerð, teppavefnað, silkisaum, smámyndalökkun, bast­vefnað, leðurmálun, gull- og perlusaum, suzani veggteppagerð, þjóðbúningasaum og skósmíði, búsáhalda­gerð og ótalmargt fleira.

Úzbeskir minjagripir eru fáanlegir á bösurum, ferðamannastöðum, hótelum og verslunarmiðstöðvum. Flestallt handverk má taka úr landi, en þó eru einhverjar takmarkanir sem leiðsögumenn ættu að vita um. Ekki má fara með hvaða teppi sem er til dæmis, og fornminjar er bannað að flytja úr landi.

Meðalhiti (°C)

Min

°C

Max

feb

12°

jan

mars

18°

apríl

25°

maí

32°

júní

37°

júlí

40°

ágúst

38°

sept

32°

oct

25°

des

11°

nóv

18°

-1°

11°

16°

18°

21°

18°

12°